11. tbl. 106. árg. 2020

Ritstjórnargrein

Nóbelsverðlaun í læknisfræði fyrir uppgötvun lifrarbólguveiru C. Sigurður Ólafsson

Sigurður Ólafsson | læknir | sérfræðingur í meltingar- og lifrarsjúkdómum á Landspítala og klínískur dósent við læknadeild Háskóla Íslands

doi 10.17992/lbl.2020.11.604

Sænska Nóbelsnefndin tilkynnti þann 5. október um verðlaunahafa í lífeðlis- eða læknisfræði árið 2020. Að þessu sinni fengu þrír vísindamenn verðlaunin, Bandaríkjamennirnir Harvey J. Alter við National Institutes of Health og Charles Rice við Rockefeller-háskólann í New York og Bretinn Michael Houghton við Alberta-háskólann í Edmonton í Kanada, fyrir að uppgötva lifrarbólguveiru C.

Á heimsvísu eru um 70 milljónir manna smitaðir af lifrarbólgu C veirunni sem veldur langvinnri lifrarbólgu, skorpulifur og lifrarkrabbameini. Talið er að um 400.000 einstaklingar deyi árlega úr þessum sjúkdómi.

Lengi var vitað að til væru tvær megingerðir af smitandi lifrarbólgu. Sú fyrri, sem fékk nafnið lifrarbólga A, veldur bráðri lifrarbólgu en leiðir yfirleitt ekki til varanlegs skaða. Hin gerðin, sem smitast aðallega með blóði og líkamsvessum, getur valdið, gjarnan á löngum tíma, skorpulifur og lifrarkrabbameini. Rannsóknir Baruch Blumberg á 7. áratugnum leiddu til uppgötvunar lifrarbólguveiru B og í kjölfarið varð unnt að skima blóðgjafa fyrir þessari veiru. Fyrir uppgötvun sína fékk Blumberg Nóbelsverðlaunin árið 1976. Þótt umtalsvert drægi úr algengi lifrarbólgu í tengslum við blóðgjafir eftir uppgötvun lifrarbólguveiru B varð fljótt ljóst að áfram var stór hópur blóðþega að veikjast af langvinnri lifrarbólgu.

Á þessum árum beindust rannsóknir Harvey Alters að lifrarbólgu hjá sjúklingum sem höfðu fengið blóð og voru hvorki smitaðir af lifrarbólguveiru A né B. Harvey og félagar gátu sýnt fram á að blóð úr þessum sjúklingum gat borið lifrarbólgu í simpansa. Í kjölfarið sýndu rannsóknir þeirra að þessi óþekkti sýkill bar öll merki þess að vera veira. Niðurstöðurnar voru birtar árið 1975.1 Þessi dularfulli sjúkdómur fékk svo nafnið „ekki A, ekki B lifrarbólga“ til aðgreiningar frá lifrarbólgu A og B.

Langur tími leið svo frá uppgötvunum Harveys og félaga þar til veiran sjálf var einangruð en þar kemur Michael Houghton við sögu. Á þeim tíma starfaði hann hjá lyfjafyrirtækinu Chiron í Kaliforníu. Michael og rannsóknarteymi hans beittu nýjum aðferðum til að einangra genamengi veirunnar. Eftir þrotlausa vinnu fundu þeir áður óþekkta RNA flavi-veiru sem hlaut nafngiftina lifrarbólguveira C. Tilvist mótefna sem fundust í blóði sýktra benti eindregið til að hér væri fundin veiran sem orsakar „ekki A, ekki B“ lifrarbólgu. Niðurstöður sínar birtu þeir í tímaritinu Science árið 1989.2,3

Enn var eftir að sanna að þessi nýuppgötvaða veira gæti orsakað lifrarbólgu. Þar kom til kasta Charles M. Rice og félaga sem beittu erfðatækni til að fjarlægja hluta erfðamengis veirunnar sem þá grunaði að hindraði veiruskiptingu. Þegar þessu nýja RNA-afbrigði var sprautað í lifur simpansa fengu þeir langvinna lifrarbólgu svipaða þeirri sem þekkt var í mönnum eftir blóðgjöf.4 Þetta var lokasönnun þess að hin nýuppgötvaða veira væri orsök óútskýrðrar lifrarbólgu hjá blóðþegum.

Uppgötvanir þessara þriggja vísindamanna og rannsóknarteyma þeirra hafa haft gríðarlega þýðingu. Í kjölfarið var unnt að þróa mótefnapróf til greiningar á veirunni. Nú var unnt að skima blóð í blóðbönkum og lifrarbólga eftir blóðgjöf heyrir sögunni til í flestum heimshlutum. Þessar uppgötv-anir voru líka forsenda þess að unnt væri að þróa lyf gegn veirunni. Þau lyf sem nú eru á markaði hafa valdið byltingu í baráttunni við lifrarbólgu C. Með einfaldri töflumeðferð er nú hægt að lækna nánast alla sem smitaðir eru af veirunni.

Þessar framfarir í greiningu og meðferð voru svo forsenda þess að árið 2016 setti Alþjóðaheilbrigðisstofnunin þjóðum heims það takmark að útrýma lifrarbólgu C sem meiriháttar heilbrigðisvá fyrir árið 2030. Í því felst að greina 90% og meðhöndla 80% smitaðra með það að markmiði að lækka dánartíðni um 65% og nýgengi um 80%.

Veiting þessara verðlauna er sérstaklega ánægjuleg fyrir okkur hér á Íslandi. Í ársbyrjun 2016 var hrundið af stað meðferðarátaki gegn lifrarbólgu C hér á landi með það að markmiði að bjóða öllum smituðum lyfjameðferð og lækningu og útrýma lifrarbólgu C sem meiriháttar heilbrigðisvá.5 Á fyrstu þremur árum átaksins tókst að meðhöndla meira en 95% allra greindra einstaklinga og stórlækka algengi lifrarbólgu C í helsta áhættuhópnum, sem er fólk sem sprautar sig með vímuefnum í æð. Árangurinn hér á landi og sú nálgun sem við höfum beitt hefur vakið athygli erlendis og skipað Íslandi í sveit forystuþjóða í baráttunni við þennan skæða sjúkdóm.

Heimildir

 

1. Feinstone SM, Kapikian AZ, Purcell RH, et al. Transfusion-associated hepatitis not due to viral hepatitis type A or B. N Engl J Med 1975; 292: 767-70.
https://doi.org/10.1056/NEJM197504102921502
PMid:163436
 
2. Choo QL, Kuo G, Weiner AJ, et al. Isolation of a cDNA clone derived from a blood-borne non-A, non-B viral hepatitis genome. Science 1989; 244: 359-62.
https://doi.org/10.1126/science.2523562
PMid:2523562
 
3. Kuo G, Choo QL, Alter HJ, et al. An assay for circulating antibodies to amajor etiologic virus of human non-A, non-B hepatitis. Science 1989; 244: 362-4.
https://doi.org/10.1126/science.2496467
PMid:2496467
 
4. Kolykhalov AA, Agapov EV, Blight KJ, et al. Transmission of hepatitis C by intrahepatic inoculation with transcribed RNA. Science 1997; 277: 570-4.
https://doi.org/10.1126/science.277.5325.570
PMid:9228008
 
5. Olafsson S, Tyrfingsson T, Runarsdottir V, et al. Treatment as Prevention for Hepatitis C (TraP Hep C) - a nationwide elimination programme in Iceland using direct-acting antiviral agents. J Intern Med 2018; 283: 500-7.
https://doi.org/10.1111/joim.12740
PMid:29512219
 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica